Strákarnir okkar töpuðu gegn Dönum með þriggja marka mun í Golden League í Noregi fyrr í dag.

Jafn var á með liðunum frá fyrstu mínútu aldrei meira en 1-2 marka munur allan fyrri hálfleikinn, staðan í hálfleik 13-14 Dönum í hag.

Í upphafi síðari hálfleiks var það sama uppi á teningnum en þegar um 10 mínútur voru til leiksloka náðu Danir þriggja marka forystu sem reyndist of mikið bil til að brúa fyrir íslenska liðið. Að lokum voru það Danir sem höfðu þriggja marka sigur, 28-31.

Eins og í síðasta leik á móti Norðmönnum var gaman að fylgjast með íslenska liðinu í dag, margir ungir leikmenn að stíga sín fyrstu spor á stóra sviðinu og augljóst að framtíðin er björt í íslenskum handbolta.

Markaskorarar Íslands:

Stefán Rafn Sigurmannsson 5, Gísli Þorgeir Kristjánsson 5, Aron Pálmarsson 5, Vignir Svavarsson 4, Ómar Ingi Magnússon 4, Haukur Þrastarson 2, Arnór Þór Gunnarsson 1, Ragnar Jóhannsson 1, Arnar Freyr Arnarsson 1.

Strákarnir okkar mæta Frökkum á morgun í síðasta leik sínum á mótinu. Leikurinn hefst kl. 13.30 og er í beinni útsendingu á SportTV.