Það var frábær stemming í Laugardalshöll í dag þegar strákarnir okkar lögðu Portúgali með þriggja marka mun í fyrri leik umspilsins um laust sæti á HM í Frakklandi 2017.

Íslensku strákarnir leiddu leikinn frá fyrstu mínútu, yfir með 2-4 marka mun en illa gekk að komast lengra frá baráttuglöðum Portúgölum. Staðan í hálfleik 13-10.

Strákarnir okkar skoruðu fyrstu 2 mörk síðari hálfleiks og komust í 15-10 en í framhaldinu skoruðu Portúgalir 3 mörk í röð úr hraðaupphlaupum. Eftir það þróaðist seinni hálfleikur svipað og sá fyrri, Ísland í forystu en Portúgal skammt undan. Það voru Portúgalir sem áttu lokaorðið þegar þeir minnkuðu munninn í 3 mörk á lokasekúndunum, lokastaðan 26-23.

Mörk Íslands í leiknum:

Aron Pálmarsson 6, Rúnar Kárason 4, Bjarki Már Elísson 4, Arnór Þór Gunnarsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 3, Ólafur Andrés Guðmundsson 2, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2 og Arnór Atlason 1.

Björgvin Páll Gústavsson átti frábæra leik í marki íslenska liðsins, varði 21 skot, þar af 3 vítaköst.

Seinni leikur liðanna verður 16. júní kl.20 og verður hann sýndur í beinni útsendingu á RÚV.