Ísland og Sviss mættust í fyrsta leik í milliriði á HM í Egyptalandi í dag. Svissneska liðið hafði leikið vel í riðlakeppninni og staðið í sterkum handboltaþjóðum, því var ljóst að framundan væri erfiður leikur.

Lítið var skorað í byrjun og í raun allan fyrri hálfleikinn, varnir beggja liða voru sterkar og markverðirnir áttu skínandi góðan leik. Strákunum okkar gekk illa að nýta dauðafærin undir lok hálfleiksins, staðan 9-10 Sviss í hag þegar liðin gengu til búningsklefa.

Strax í upphafi síðari hálfleiks varð íslenska liðið fyrir áfalli þegar Alexander Petersson fékk rautt spjald en spilamennska liðanna breyttist lítið og áfram var lítið skorað. Það var ekki fyrr en á lokamínútunum að Svisslendingar komust 2 mörkum tryggðu sér sigurinn, lokatölur 20-18 fyrir Sviss.

Markaskorarar Íslands:
Ólafur Guðmundsson 4, Björgvin Páll Gústavsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Bjarki Már Elísson 2, Elvar Örn Jónsson 2, Viggó Kristjánsson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1, Oddur Grétarsson 1, Kristján Örn Kristjánsson 1, Alexander Petersson 1.
Björgvin Páll Gústavsson varði 10 skot og Ágúst Elí Björgvinsson varði 3 skot.

Næsti leikur íslenska liðsins er á föstudaginn en þá mæta strákarnir okkar Frökkum kl. 17:00. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.