A landslið karla | Tap gegn Dönum í hörkuleik

Strákarnir okkar léku sinn fyrsta leik í milliriðli gegn Dönum fyrr í kvöld. Í aðdraganda leiksins bárust þær óskemmtilegu fréttir að 6 leikmenn úr herbúðum íslenska liðsins hefðu greinst með Covid-19 en maður kemur í manns stað og strákarnir voru staðráðnir í því að gera sitt allra besta í leik kvöldsins.

Mikið jafnræði var á með liðunum í upphafi leiks og skiptust þau á að hafa forystu allt þar til í 20. mínútu en í stöðunni 12-12 skoruðu Danir 3 mörk í röð. Hélst sá munur á liðunum út fyrri hálfleikinn, staðan 17-14 eftir 30 mínútur.

Þessi munur á liðunum hélt allt þar til um 10 mínútur voru eftir, lítið var hægt að kvarta yfir spilamennsku og baráttu strákanna okkar en danski markvörðurinn átti stórleik og reyndist það þrautinni þyngri að koma boltanum framhjá honum. Þó að Danir hafi komist mest 5 mörkum yfir þá náði íslenska liðið að klóra í bakkann á lokamínútunum, lokatölur 28-24 Dönum í hag.

Markarskorar Íslands:
Ómar Ingi Magnússon 8, Janus Daði Smárason 4, Elvar Ásgeirsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Orri Freyr Þorkelsson 2, Teitur Örn Einarsson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1, Daníel Þór Ingason 1, Elliði Snær Viðarsson 1.

Ágúst Elí Björgvinsson varði 3 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson 2.

Næsti leikur Íslands er á laugardag kl. 17.00 gegn Frökkum. Við minnum á beina útsendingu á RÚV, EM stofan hefst kl. 16.30.

ÁFRAM ÍSLAND!