A landslið karla | Svekkjandi tap í framlengdum leik!

Í kvöld mættu strákarnir okkar Noregi í úrslitaleik um 5. sæti EM 2022. Það lið sem myndi enda í 5. sæti væri komið með farmið á HM 2023.

Leikurinn byrjaði jafn og var hraðinn mikill framan af leik. Norðmenn voru svo örlítið sterkari og leiddu í hálfleik með 4 mörkum. Þeir virkuðu aðeins ferskari enda fengu þeir einum frídegi lengur en strákarnir okkar.

En strákarnir okkar fundu greinilega meiri orku í hálfleiknum og mættu grimmir til leiks í seinni hálfleik. Mikil barátta, kraftur og hungur einkenndi leik strákanna sem gerði að verkum að liðið jafnaði leikinn í 24-24. Eftir það var leikurinn jafn á öllum tölum og fór svo að leikurinn endaði jafntefli, 29-29 og framlenging staðreynd. Sama spenna hélt áfram í framlengingunni og jafnt nánast á öllum tölum. Það fór svo á endanum þannig að Harald Reinkind skoraði sigurmark Norðmanna með síðasta kasti leiksins. Lokatölur leiksins því 33-34 fyrir Noreg. Niðurstaðan því 6.sætið.

Mörk Íslands: Ómar Ingi Magnússon 10/2, Janus Daði Smárason 8, Elvar Örn Jónsson 6, Bjarki Már Elísson 5/2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Ýmir Örn Gíslason 1, Ólafur Andrés Guðmundsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 10 og Ágúst Elí Björgvinsson 3.

Íslenska landsliðið hefur leikið frábærlega á þessu móti. Mikið hefur gengið á hjá liðinu og vantað marga lykilmenn í liðið á mótinu vegna covid smita. Þegar mest var vantaði 8 leikmenn sem segir margt um ástandið. Strákarnir hafa sýnt mikinn styrk allt mótið og liðsheild og leikgleði skinið úr hverju andliti. Það verður frábært að fylgjast með framgöngu liðsins í komandi verkefnum.

Áfram Ísland!