A landslið karla | Stórsigur gegn Svartfellingum

Strákarnir okkar mættu Svartfellingum í lokaleik liðanna í milliriðli á EM í Ungverjalandi, fyrir leikinn var ljóst að sigurliðið myndi hið minnsta leika um 5. sætið á mótinu en ef allt gengur upp átti íslenska liðið möguleika á því að komast í undanúrslit.

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og komst í 6-1 eftir 12 mínútna leik, varnarleikur og markvarsla til fyrirmyndar og gott flæði í sókninni. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn jókst munurinn á milli liðanna og þegar flautað var til leikhlés var staðan 17-8 Íslandi í hag.

Svartfellingar bitu frá sér í upphafi síðari hálfleiks og náðu að minnka muninn niður í 5 mörk en strákarnir okkar voru ekki af baki dottnir og löguðu sína spilamennsku undir eins. Aftur fór munurunn uppá við og að lokum vannst 10 marka stórsigur, 34-24.

Markaskorar Íslands:
Ómari Ingi Magnússon 11, Bjarki Már Elísson 8, Elvar Ásgeirsson 3, Elvar Örn Jónsson 2, Aron Pálmarsson 2, Ýmir Örn Gíslason 2, Þráinn Orri Jónsson 2, Teitur Örn Einarsson 1, Darri Aronsson 1, Kristján Örn Kristjánsson 1 og Sigvaldi Björn Guðjónsson 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 9 skot og Ágúst Elí Björgvinsson varði 2.

Þessi sigur þýðir að íslenska liðið er búið að tryggja sér leik um 5. sætið á mótinu og en er möguleiki á að komast í undanúrslit. Vinni Danir Frakka í lokaleik kvöldsins leikur íslenska liðið til undanúrslita gegn Spánverjum á föstudag, nánar um það í kvöld.