A landslið karla | Snorri Steinn tekur við strákunum okkar

Á blaðamannafundi eftir hádegið í dag tilkynnti Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ að Snorri Steinn Guðjónsson hefði verið ráðinn þjálfari A landsliðs karla til næstu þriggja ára. Þá var einnig greint frá ráðningu Arnórs Atlasonar sem aðstoðarþjálfara.

Þeir félagar eru íslenskum handknattleiksfólki góðu kunnugir, báðir áttu þeir langan feril sem atvinnumenn í Þýskalandi, Frakklandi og Danmörku en fóru rakleiðis í þjálfun eftir að leikmannaferlinum lauk. Snorri Steinn hefur þjálfað Val í Olísdeildinni hér heima undanfarin fimm keppnistímabil með góðum árangri á meðan Arnór hefur verið aðstoðarþjálfari hjá Álaborg í Danmörku auk þess að þjálfa U-21 árs landsliðs Dana.

Snorri lætur nú af störfum sem þjálfari Vals en auk þess að taka við landsliðinu mun hann koma að útbreiðslumálum á skrifstofu HSÍ. Arnór mun þjálfa Team Tvis Holstebro í dönsku deildinni á næsta ári ásamt því að vera aðstoðarþjálfari Snorra hjá landsliðinu.

Handknattleikssamband Íslands bindur miklar vonir við þessa ráðningu, þarna eru á ferðinni tveir fyrrverandi leikmenn sem þekkja umhverfi atvinnu- og landsliðsmanna og hafa mikla reynslu af leiknum bæði sem leikmenn og þjálfarar. Sem stendur eigum fjölmarga leikmenn sem spila í bestu deildum Evrópu og því eru spennandi tímar framundan, við bjóðum þá Snorra og Arnór velkomna til starfa.