A landslið karla | Sigur gegn Ungverjalandi og 2 stig tryggð inn í milliriðil

Strákarnir okkar léku í kvöld sinn síðasta leik í riðlakeppni EM 2022 í Búdapest. Andstæðingarnir voru heimamenn, Ungverjar. Sigur í kvöld tryggði liðinu 2 stig inn í milliriðil.

Höllin sem tekur 20.000 áhorfendur var full setin og stemningin mögnuð á meðal áhorfenda. Þó svo að íslensku áhorfendurnir voru einungis  500 manns voru þeir duglegir að láta í sér heyra. Strax í upphafi var ljóst að spennan var mikil og um hörkuleik yrði að ræða. Liðin skiptust á að leiða með einu marki þar til Bjarki Már Elísson skoraði á 16 mínútu og kom Íslandi í 11 – 9. Ísland leiddi með einu marki mest allan fyrri hálfleikinn. Ungverjar náði á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks að jafna metin í 17 – 17 eftir spennandi  lokamínútur. Sóknarleikur Íslands var frábær í fyrri hálfleik svo ekki sé meira sagt.  Varnaleikurinn var góður en stórir línumenn Ungverjalands gerðu okkar varnarmönnum erfitt fyrir.  Flest öll mörk Ungverja komu frá línu eða með gegnumbrotum.

Seinni háflleikur byrjaði eins og sá fyrri með jafn mikilli spennu frá fyrstu mínútur. Íslenska liðið hafði greinilega farið vel yfir varnarleikinn í hálfleik og stóð nú aftar gegn sterkum línumönnnum Ungverja sem skilaði góðum árangri. Þegar 9 mínútur voru búnar af seinni hálfleik kom Bjarki Már Elísson Íslandi tveimur mörkum yfir og staðan 23 – 21.Ungverjaland náði að jafna metin þegar um 15 mínútur voru til leiksloka og Guðmundur Guðmundsson tekur þá leikhlé. Strákarnir okkar komust svo yfir á 53 mínútu og þá forystu létu þeir ekki af hendi það sem lifði leiks. Leikurinn endaði með 31 – 30 sigri Íslands og efsta sætið í B-riðli tryggt og sæti í milliriðli með 2 stig.

Óhætt er að fullyrða að þessi leikur var mjög góður af hálfu íslenska liðsins, sóknarleikurinn nær hnökra laus  allan leikinn og varnarleikurinn mjög góður einkum í síðari hálfleik.  Spilamennska liðsins í riðlinum var mjög góð og stigin sem liðið tekur með sér í milliriðil eru mjög dýrmæt enda ekki neinum vifiskötum að mæta í milliriðli stórliðum á borð við Danmörk, Frakkland, Króatíu og Svartfjallaland.

Markaskorarar Íslands:
Bjarki Már Elísson 9, Ómar Ingi Magnússon 8, Sigvaldi Björn Guðjónsson 5, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Aron Pálmarsson 2, Ýmir Örn Gíslason 1, Elvar Örn Jónsson 1 og Elliði Snær Viðarsson 1 mark

Björgvin Páll Gústavsson varði 14 skot í leiknum.

Leikir Íslands í milliriðli EM eru eftirfarandi:
20. janúar:
Danmörk – Ísland

22. janúar:
Frakkland – Ísland

24. janúar:
Ísland – Króatía

26. janúar:
Ísland – Svartfjallaland