Strákarnir okkar mættu frændum okkar Svíum í dag í vináttulandsleik í borginni Kristianstad en bæði liðin undirbúa sig núna fyrir EM 2020 sem fram fer í Noregi, Svíþjóð og Austurríki í janúar nk.

Svíar byrjuðu betur í dag en strákarnir okkar skoruðu ekki sitt fyrsta mark í dag fyrr en á 11 mínútu og var þar að verki Teitur Einarsson og staðan í leiknum varð 3 – 1. Svíar leiddu allan fyrri hálfleikinn en minnst náði Ísland að minnka muninn í eitt mark og staðan í hálfleik var 13 – 11.

Strákarnir okkar komu sterkir til leiks í seinni hálfleikinn og komust yfir í stöðuna 13 – 14 eftir fjögurra mínútna leik. Þegar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var staðan 21 – 18 fyrir Svíþjóð en strákarnir okkar voru ekki á þeim buxunum að gefast upp. Góður kafli tók við í vörn og sókn og sjö mínútur voru til leiksloka jafnaði Sigvaldi Björn Guðjónsson leikinn með marki úr hraðupphlaupi.

Síðustu mínútur leiksins voru spennandi en með góðum leik náðu strákarnir okkar að tryggja sér sigur og leikurinn endaði 26 – 27. 

Mörk Íslands í dag skoruðu Sigvaldi Guðjónsson 5 mörk, Kári Kristján Kristjánsson 4, Ólafur Guðmundsson 4, Teitur Einarsson 3, Haukur Þrastarsson 3, Elvar Örn Jónsson 3, Bjarki Már Elísson 2, Aron Pálmarsson 2, Viggó Kristjánsson 1 mark.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 8 skot og Ágúst Elí Björgvinsson varði 2 skot. 

Viggó Kristjánsson lék í dag sinn fyrsta landsleik fyrir A-landslið Íslands. 

Ísland mætir Svíum aftur á sunnudaginn kl 15:00 að íslenskum tíma og verður leikurinn í beinni útsendingu á SportTV.