Strákarnir okkar unnu frábæran sigur á Svíum í dag í fyrsta leik liðsins á EM í Króatíu.

Íslensku strákarnir voru í miklu stuði strax í byrjun og tóku öll völd á vellinum. Eftir rúmar 13 mínútur tók Kristján Andrésson sitt annað leikhlé og þá var staðan orðin 11-4 íslenska liðinu í hag. Sá munur hélst svo fram að hálfleik, 15-8 þegar flautað var til leikhlés.

Eftir tvö sænsk mörk á upphafsmínútu síðari hálfleiks tóku íslensku strákarnir aftur öll völd á vellinum og náðu mest 10 marka forystu 21-11. En þá fór allt í baklás, Svíar tóku öll völd á vellinum og minnkuðu muninn niður í 3 mörk, 23-20 þegar 6 mínútur voru eftir. En strákarnir okkar héldu út og lönduðu sanngjörnum sigri, 26-24.

Markaskorarar Íslands:

Ólafur Andrés Guðmundsson 7, Arnór Þór Gunnarsson 5, Guðjón Valur Sigurðsson 5, Rúnar Kárason 5, Aron Pálmarsson 3, Janus Daði Smárason 1.

Björgvin Páll Gústafsson varði 17 skot í leiknum, þarf af 2 víti.

Næsti leikur liðsins er á sunnudag kl. 20.00 gegn heimamönnum í Króatíu. Leikurinn er að sjálfsögðu í beinni útsendingu á RÚV.