Í dag var Guðmundur Þ. Guðmundsson ráðinn þjálfari A-landsliðs karla og var það kynnt í húsakynnum Arion banka á blaðamannafundi HSÍ í dag.

„Þetta er ögrandi og spennandi verkefni og ég vil leggja mitt af mörkum til þess að búa til nýtt og gott landslið“ sagði nýr landsliðsþjálfari meðal annars.

Er þetta í þriðja sinn sem Guðmundur tekur við strákunum okkar. Áður hafði hann stýrt liðinu frá 2001 til 2004 og svo í annað sinn á árunum 2008 til 2014. Glæsilegur ferill Guðmundar státar meðal annars af silfurverðlaunum á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlaun á EM í Austurríki 2010 með íslenska liðið. Stýrði hann svo danska landsliðinu til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Samningurinn við HSÍ nær til þriggja ára.

Guðmundur mun njóta krafta Gunnars Magnússonar, þjálfara Hauka, en hann var ráðinn aðstoðarþjálfari sem og að fyrrverandi landsliðsmarkvörður Svía, Tomas Svensson, mun sjá um markmannsþjálfun.

Það eru spennandi tímar framundan hjá strákunum okkar. Áfram Ísland.