Það var kátt í Höllinni í kvöld þegar strákarnir okkar lögðu Svía með tveggja marka mun í stórskemmtilegum handboltaleik.

Jafnt var á með liðunum fyrstu mínúturnar en eftir rúmlega 10 mínútur höfðu Svíar náð þriggja marka forskoti 6-9. En strákarnir okkar voru hvergi nærri hættir og við tók frábær kafli sem skilaði liðinu þriggja marka forystu í hálfleik, 18-15.

Í byrjun síðari hálfleiks minnkuðu Svíarnir muninn niður í 1 mark, en íslenska liðið náði þó alltaf að halda því sænska frá því að jafna. Varnarleikur íslenska liðsins styrktist eftir því sem leið á og þegar 10 mínútur voru eftir var forskotið aftur orðið 3 mörk. Strákarnir okkur spiluðu af miklu öryggi síðustu 10 mínútur leiksins og unnu góðan tveggja marka sigur, 31-29.

Það var gaman að sjá til íslenska liðsins í kvöld, ungu strákarnir sýndu að þeir eiga fullt erindi í hópinn og það er ljóst að það verður gaman að fylgjast með liðinu næstu misseri. 

Markaskorarar Íslands í kvöld:

Ólafur Andrés Guðmundsson 6, Bjarki Már Elísson 5, Ómar Ingi Magnússon 4, Janus Daði Smárason 4, Rúnar Kárason 3, Arnór Þór Gunnarsson 3, Daníel Þór Ingason 2, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2, Atli Ævar Ingólfsson 1, Arnar Freyr Arnarsson 1.

Björgvin Páll Gústavsson varði 6 skot í íslenska markinu og Aron Rafn Eðvarðsson varði 1 skot.

Ísland og Svíþjóð mætast aftur á laugardaginn kl.14.00, miðasala er á
TIX.is