Um helgina voru 50 ár frá því íslenska karlalandsliðið í handbolta vann Dani í fyrsta skipti.

Af því tilefni hittust leikmenn liðsins að Bessastöðum í boði Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Ísland. 

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hópinn á Bessastöðum. Frá vinstri Geir Hallsteinsson, Sigurður Einarsson, Björgvin Björgvinsson, Jón Hjaltalín Magnússon, Ágúst Ögmundsson, Þórður Sigurðsson, Ingólfur Óskarsson og Guðni Th. Jóhannesson. Á myndina vantar eftirtalda leikmenn sem léku þennan fræga leik gegn Dönum 9. apríl 1968; Gísli Blöndal, Sigurbergur Sigsteinsson, Þorsteinn Björnsson og Emil Karlsson.

Hér má svo sjá liðsmynd sem tekin var að leik loknum fyrir 50 árum, en þess má geta að þjálfari liðsins var Birgir Björnsson.

 

Í grein úr Alþýðublaðinu er leiknum lýst svona:

Nú lágu Danir í því, hugsuðu eflaust margir eftir síðari leik Íslands og Dana á sunnudaginn. Geysilegur fögnuður ríkti í Laugardalshöllinni að leik loknum, sem náði hámarki, þegar menntamálaráðherra Gylfi Þ. Gíslason gekk fram á völlinn og bað viðstadda að hylla íslenzka liðið með ferföldu húrrahrópi, sem kröftuglega var tekið undir. Loksins hafði tekizt að sigra Danina og það svo um munaði. Aldrei allan leikinn út í gegn var nokkur vafi á því hvort liðið væri sterkara, íslenzka liðið leiddi allan leikinn og í hálfleik var stáðan 8-6 fyrir ísland, en þá var höfuðverkurinn eftir þ.e.a.s. seinni hálfleikurinn, en svo undarlega brá við að landsliðið hélt áfram sínum góða og jafna leik og bætti við yfrburði sína, en leiknum lauk 15-10 fyrir Ísland. Landsliðsnefnd hefur gert róttækar breytingar á liðinu frá því í fyrri leiknum og fannst mörgum nóg um, en þær breytingar stóðust og reyndust til hins betra.

Í frétt RÚV má sjá frekari finna myndefni og viðtöl frá leiknum, hana má finna
HÉR.