Í kvöld kemur í ljós hver verður andstæðingur íslenska karlalandsliðsins í í umspilsleikjum í júní vegna keppnisréttar á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Egyptalandi 15. til 31. janúar á næsta ári. Hafist verður handa við að draga á Hilton hótelinu í Vínarborg klukkan 18.

Ísland verður í efri styrkleikaflokki í drættinum en fyrir nokkru var þjóðunum 20 sem sem eiga nöfn sín í skálunum tveimur við dráttinn í kvöld skipt niður í tvo flokka.

Í efri flokki ásamt Íslandi verða landslið eftirfarandi þjóða: Slóvenía, Þýskaland, Portúgal, Svíþjóð, Austurríki, Ungverjaland, Hvíta-Rússland, Tékkland og Frakkland.

Í neðri styrkleikaflokknum verða landslið neðangreindra þjóða en eitt þeirra verður andstæðingur Íslands:

Norður-Makedónía, Sviss, Holland, Svarfjallaland, Úkraína, Serbía, Tyrkland/Rússland, Rúmenía/Bosnía Herzegóvína, Pólland/Litháen, Ísrael/Lettland.

Til stendur að Tyrkland og Rússland, Rúmenía og Bosnía Herzegóvína, Pólland og Litháen, Ísrael og Lettland mætist í leikjum heima og að heiman upp úr miðjum apríl þar sem úr fæst skorið hvaða fjögur lið taka þátt í umspilsleikjunum í vor. 

Fyrri umferð umspilsleikjanna fyrir HM fer fram 5. til 7. júní og sú síðari 9. til 11. júní.

Hægt verður að fylgjast með drættinum í kvöld á EHF EURO YouTube síðu og einnig á Facebok síðu EHF, Handknattleikssambands Evrópu.

#handbolti #strakarnirokkar