A landslið karla | Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar liðið áfram

Handknattleikssamband Íslands og Guðmundur Þ. Guðmundsson undirrituðu í dag samkomulag þess efnis að Guðmundur verði áfram þjálfari A landsliðs karla fram yfir Ólympíuleikana 2024. Guðmundur þjálfaði íslenska landsliðið 2001 – 2004 og 2008 – 2012 áður en hann tók við liðinu í þriðja sinn 2018. Undir stjórn Guðmundar vann liðið silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og bronsverðlaun á Evrópumótinu í Austurríki 2010, eflaust er landsmönnum enn ferskt í minni Evrópumeistaramótið sem fór fram í janúar sl. en þar endaði íslenska liðið í 6. sæti. Sem leikmaður lék Guðmundur 230 landsleiki og skoraði í þeim 356 mörk.

Jafnframt var tilkynnt á blaðamannafundinum í dag að næstu tvö árin munu Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson verða í þjálfarateymi A landsliðs karla.

Á sunnudaginn ræðst það hvort Ísland mætir Austurríki eða Eistlandi í umspilsleikjum um laust sæti á HM 2023 en leikið verður heima og heiman í um miðjan apríl. 31. mars nk. verður svo dregið í riðla í undankeppni EM 2024 en það mót fer fram í Þýskalandi í janúar 2024.