A landslið karla | Fréttir af strákunum

Og áfram heldur undirbúningurinn hjá strákunum okkar fyrir EM í Ungverjalandi sem hefst nú eftir 5 daga en þá mætum við Portúgal. Dagurinn í dag byrjaði á morgunmat og í framhaldinu var Guðmundur landsliðsþjálfari með myndbandsfund þar sem hann fór yfir áherslur liðsins í sókn. Í framhaldi af því voru leikmenn í meðferðum hjá sjúkrateymi liðsins. Standið og staðan á strákunum er góð og allir lausir við alvarleg meiðsl. Seinni partinn var svo æfing í Víkinni og spilaður var leikur innbyrgðis hjá hópnum á tvö mörk og sáust þar mjög góðir sprettir.


“Æfingarnar hafa gengið vel og spilið í dag var á köflum mjög gott. Hugarfarið hjá strákunum er gott og hungrið er til staðar. Nú notum við síðustu æfingarnar til að fínpússa okkar leik jafnt í vörn sem sókn” sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands” að æfingu lokinni.


Í kvöld borða strákarnir svo saman og fara í meðhöndlum hjá sjúkraþjálfurum liðsins þeir sem það þurfa ásamt að gera sér eitthvað til skemmtunar.