A landslið karla | Ferðadagur hjá strákunum okkar

Síðustu níu daga hafa strákarnir okkar haldið til á Grand hótel Reykjavík. Hótelið hefur dekrað við landsliðið á meðan þeir undirbjuggu sig fyrir komandi átak á EM. Dvöl þeirra þar lauk í morgun og vilja strákarnir og HSÍ þakka Íslandshótelum kærlega fyrir frábæra þjónustu við landsliðið.

Ferðadagurinn hófst á því að hópurinn var sóttur kl. 07:00 á Grand hótel og haldið var í Leifsstöð þar sem beið þeirra vél Icelandair sem flaug í beinu flugi til Búdapest. Icelandair og Loftleiðir gerði svo sannarlega vel við strákana í dag en þeir flugu út í lúxusþotu flugfélagsins. Með í för voru m.a. fjölmiðlar frá RÚV, Visir/Stöð2, Handbolti.is og Morgunblaðinu ásamt Sérsveitinni stuðningsveit landsliðins.

Lent var í Búdapest kl. 14:00 að staðartíma og eftir að farangri hafði verið komið í merkta rútu íslenska landsliðsins var haldið á dvalarstað strákanna okkar. Eftir innritun á hótelinu tók við PCR próf hjá hópnum ásamt því að landsliðið fór í myndatöku hjá mótshöldurum.

Á morgun tekur svo við hefðbundin dagskrá með æfingu og fjölmiðlahitting og munum við fjalla ítarlega um verkefni landsliðins hér í Búdapest á miðlum HSÍ næstu daga.