Íslenska liðið mætti gríðarlega einbeitt til leiks fyrir framan 11 þúsund Króata í Split. Leikurinn var í járnum frá fyrstu mínútu þar sem strákarnir okkar höfðu þó frumkvæðið til að byrja með og leiddu mest með einu marki. Króatarnir tóku þá rispu eftir 20 mínútur og skoruðu þrjú mörk í röð og allt í einu þriggja marka munur. Íslenska liðið var þó ekkert á því að gefa eftir og sóttu í sig veðrið. Munurinn bara eitt mark í hálfleik, 13 -14 Króötum í vil.

Króatarnir skoruðu 5 mörk gegn engu á 5 mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks þar sem Ivan Stevanovic reyndist okkar mönnum gríðarlega erfiður í markinu. Varnarleikur strákana okkar hikstaði og Geir Sveinsson sá ekki annan kost í stöðunni en að taka sitt þriðja og síðasta leikhlé eftir aðeins 40 mínútna leik í stöðunni 15- 21.

Varnarleikur Króata óx með hverri mínútunni og illa tókst að koma boltanum fram hjá Stevanovic. Það mátti einnig sjá á þjálfarateyminu og leikmönnum íslenska liðsins að þeir voru ekki sáttir með nokkrar ákvarðanir rússneska dómaraparsins. Þegar að 13 mínútur lifðu af leiknum náðu heimamenn 7 marka forystu. Það reyndist of stór biti fyrir okkar menn og lokatölur 22 – 29 fyrir Króatíu.

Framundan er gríðarlega mikilvægur leikur við Serbíu á þriðjudag þar sem allt verður undir. Leikurinn hefst kl. 17.15 og verður í beinni á RÚV.


Markarskorar Íslands:Aron Pálmarsson 5, Arnór Þór Gunnarsson 4/3, Ólafur Andrés Guðmundsson 3, Ómar Ingi Magnússon 3, Janus Daði Smárason 3, Rúnar Kárason 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Guðjón Valur Sigurðsson 1.

Björgvin Páll Gústavsson varði 9 skot og Ágúst Elí Björgvinsson varði 3.