A landslið karla | 10 marka sigur gegn Ísrael

Strákarnir okkar léku í kvöld gegn Ísrael í Tel Aviv í undankeppni EM 2022 og er það fyrsti leikurinn af þremur sem liðið leikur á næstu sex dögum. Landsliðið mætti af krafti inn í leikinn og ljóst var frá fyrstu mínútu að strákarnir okkar ætluðu ekki að gefa Ísraelum neinn grið á vellinum. Eftir 15 mínútna leik var Ísland komið með 10 – 3 forystu og vörn íslenska liðsins til fyrirmyndar. Þegar dómarar leiksins blésu til hálfleiks var staðan 17 – 9 fyrir strákunum okkar.

Í seinni hálfleik náði Ísrael mest að minnka munin í sjö mörk en nær komust þeir aldrei í leiknum. Allir sextán leikmenn í íslenska hópnum fengu að spreyta sig í kvöld, sem er kærkomið fyrir framhaldið. Leikurinn endaði með tíu marka sigri Íslands 30 – 20.

Markaskorarar Íslands:  
Elvar Örn Jónsson 5, Ómar Ingi Magnússon 5, Viggó Kristjánsson 5, Sigvaldi Guðjónsson 4, Aron Pálmarsson 3, Bjarki Már Elísson 3, Arnar Freyr Arnarsson 1, Oddur Gretarsson 1, Sveinn Jóhannsson 1, Tandri Már Konráðsson 1 og Teitur Örn Einarsson 1 mark.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 11 skot og Ágúst Elí Björgvinsson varði 8 skot.

Strákarnir okkar fljúga á morgun frá Tel Aviv til Vilnus í Litháen en þar fer fram leikur Litháen og Íslands sem fram fer á fimmtudaginn kl. 16:00.