A kvenna | Tap í fyrsta leik á HM

Stelpurnar okkar léku í kvöld sinn fyrsta leik á HM 2023 þegar þær mættu Slóveníu í Stavanger. Fyrstu mínútur leiksins voru liðinu erfiðar, spennustigið full hátt og tók það nokkrar mínútur fyrir liðið að finna taktinn. Slóvenar komust mest í sjö marka forystu en með dugnaði og elju og mikilli trú náðu stelpurnar okkar að vinna sig inn í leikinn. Í hálfeik var staðan 16 – 13 Slóveníu í vil.

Í seinni háflleik náði íslenska liðið að vinna sig hægt og rólega inn í leikinn og á tímabili var munurinn kominn niður í eitt mark. Spennan mikil og stelpurnar hársbreidd frá því að jafna en fór þá illa með góð marktækifæri. Slóvenska liðið reyndist svo vera sterkara á lokakaflanum og endaði leikurinn með 30 – 24 sigri Slóvena.

Um 200 stuðningsmenn Íslands studdu stelpurnar okkar í kvöld undir styrkri stjórn Sérsveitarinnar. Stemningin á pöllunum var frábær sem skilaði sér inn á völlinn til stelpnanna sem börðust í 60 mínútur sem ein heild og á stórum köflum spiluðu mjög góðan handbolta.

Mörk Íslands í kvöld skoruðu:
Thea Imani Sturludóttir 5, Sandra Erlingsdóttir 5, Perla Ruth Albertsdóttir 5, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Díana Dögg Magnúsdóttir 2 og Hildigunnur Einarsdóttir 1 mark.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 7 skot.

Á laugardaginn leikur Ísland gegn Frakklandi. Leikurinn hefst kl. 17:00 og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Ljósmyndir Handballfoto