A kvenna | Jafntefli gegn Angóla

Síðasti leikur Íslands í riðlakeppni HM kvenna fór fram í dag þegar stelpurnar okkar mættu liði Angóla. Viðureignin skar úr um hvort liðið færi áfram í milliriðla eða í Forsetabikarinn.

Fyrri hálfleikur leiksins í dag var hörkuspennandi en í hálfleik var staðan 15 – 14 fyrir Angóla. Angóla byrjaði síðari hálfleikinn betur og náði um tíma 5 marka forystu. Stelpurnar okkar náðu með gríðarlegri baráttu að vinna sig inn í leikinn á ný og var hann hnífjafn. Leikurinn endaði 26 – 26 sem dugði liði Angóla til að fara áfram í milliriðil. Það er því ljóst að íslenska liðið heldur á morgun til Fredrikshavn í Danmörku þar sem Forsetabikarinn verður spilaður. Framundan eru fjórir leikir og verður sá fyrsti á fimmtudag gegn Grænlandi.

Mörk Íslands í kvöld skoruðu:
Sandra Erlingsdóttir 6 mörk, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 3, Perla Ruth Albertsdóttir 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Elíasa Elíasdóttir 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Andrea Jacobsen 1 og Sunna Jónsdóttir 1 mark.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 10 skot og Hafdís Renötudóttir 2 skot.

HSÍ vill þakka Sérsveitinni og öllum stuðningsmönnum Íslands sem mættu til Stavanger og studdu stelpurnar okkar fyrir frábæran stuðning síðustu daga!