A kvenna | Flottur seinni hálfleikur skóp sigur í Færeyjum

Stelpurnar okkar léku í dag sinn annan leik í undankeppni EM 2024 gegn Færeyjum. Leikið var í Færeyjum en stelpurnar voru vel studdar af fjölda Íslendinga sem fylgdu liðinu út.

Íslenska liðið byrjaði vel í dag og komst fljótlega í góða stöðu 7-3. Þá tóku heimastúlkur við sér og breyttu stöðunni í 8-7 sér í vil. Jafnræði var með liðunum svo út hálfleikinn en í hálfleik var staðan 12 –11 Færeyjum í vil.

Stelpurnar okkar byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þann fyrri og náðu frumkvæðinu á ný en þegar hálfleikurinn var hálfnaður var staðan 20 – 16 Íslandi í vil. Í þetta skiptið hélt íslenska liðið út og unnu að lokum góðan og mikilvægan sigur 28 – 23.

Markaskorarar Íslands í dag voru:
Sandra Erlingsdóttir 6, Thea Imani Sturludóttir 6, Hildigunnur Einarsdóttir 5, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Andrea Jacobsen 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1 og Sunna Jónsdóttir 1.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði mark Íslands í dag og átti flottan dag en hún endaði með 14 varin skot.

Tveir sigrar í tveimur leikjum hjá stelpunum í þessari landsliðslotu. Næst kemur liðið saman 20. nóvember en þá hefst undirbúningur fyrir HM en fyrsti leikur liðsins þar er 30. nóvember við Slóveníu.