A kvenna | BA ritgerð um A landslið kvenna

,,Stemning, leikgleði, samstaða og við vinnum hver fyrir aðra‘‘. Íslenska kvennalandsliðið
í handknattleik snéri aftur á stórmót

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik hefur nú náð þeim merka árangri að spila á fjórum stórmótum. Ellefu
ár eru liðin síðan liðið tók síðast þátt á stóra sviðinu. Liðið komst á stórmót þrjú ár í röð á árunum 2010-2012.
Ég velti því fyrir mér hvort núverandi hópur og hóparnir sem valdir voru á þessum árum eigi eitthvað
sameiginlegt?

Saga íslenska liðsins á árunum 2000-2015 var umfjöllunarefni BS ritgerðar sem ég skrifaði í námi mínu í
íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík árið 2015. Þar var meginmarkmið mitt að skoða hvað það var sem lá að
baki árangri liðsins á árunum 2009-2012.

Við undirbúning ritgerðarinnar tók ég viðtöl við sex viðmælendur sem ýmist voru fyrrverandi eða núverandi
leikmenn, þjálfarar eða aðstoðarþjálfarar íslenska kvennalandsliðsins.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að viðmælendur töldu að lykilþættir þess að liðið komst á stórmót
þrjú ár í röð voru meðal annars þeir að liðið bjó yfir sterkri liðsheild og öðlaðist trú á eigin getu eftir að hafa
yfirstigið hindranir.

Hafrún Kristjánsdóttir sagði: ,,Það skiptir engu máli hversu góðir leikmennirnir eru ef að þeir geta ekki spilað
saman þá ná þeir aldrei neinum árangri, það þarf alltaf að vera liðsheild til staðar því hún kemur liðinu alltaf
lengra áfram.“

Viðmælendur nefndu einnig að innan liðsins voru sterkir leiðtogar sem hjálpuðu til bæði innan sem utan vallar.
Það að hafa komist einu sinni á stórmót hefði einnig gert það auðveldara fyrir liðið að komast aftur. Jafnframt
fannst viðmælendum skipta máli að íslenska liðið var heppið með mótherja, það spilaði gegn löndum sem það
hafði trú á að geta sigrað.

Allir viðmælendur voru á sama máli þegar þeir voru spurðir um veikleika liðsins. Það er að liðinu vantaði
líkamlegan styrk. Stefán Arnarsson, þáverandi þjálfari kvennaliðs Fram, greindi frá því að önnur landslið væru
gjarnan sterkari sem gerir það að verkum að þau unnu önnur lið í stöðunni maður á mann. Einar Jónsson,
þáverandi þjálfari norska kvennaliðs Molde, tók í sama streng og nefndi að þetta væri mögulega veikasti
hlekkur liðsins. Þó svo að leikmenn væru í góðu hlaupaformi hafði það háð liðinu að því skorti sprengikraft og
líkamlegan styrk.

Núverandi landsliðshópur
Í núverandi hóp á Valur flesta leikmennina eða sex talsins. Þá leika sex leikmenn erlendis sem er sambærilegur
fjöldi og var í landsliðshópnum sem fór á EM 2012. Þar af leiðandi ættu leikmennirnir að þekkja vel inn á hvor
annan. Áhugavert er að sjá fjölgun leikmanna erlendis eftir þátttöku á stórmóti og velti ég því fyrir mér hvort
slíkt muni gerast aftur eftir nýafstaðið stórmót.

Á árum áður voru lið Vals og Fram með áberandi flestu leikmennina. Þá var hörð barátta á milli þessara tveggja
liða í úrslitakeppnum í deildinni hér heima. Guðríður Guðjónsdóttir nefndi í viðtali við undirbúning
ritgerðarinnar að leikmennirnir væru vanir að spila saman og á móti hvorum öðrum en náðu að kasta baráttunni
til hliðar og spila sem ein heild í landsliðinu.

Að spila með hjartanu
Í aðdraganda HM 2023 var Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, gestur í
Íþróttavarpinu, hlaðvarpi RÚV íþrótta. Sagðist Þórey aldrei áður hafa verið eins stolt af lýsingu á liði sem hún
hefur spilað með. Lýsingin átti við um frammistöðu liðsins á HM í Brasilíu árið 2011. Þetta vakti sérstaklega
athygli mína þar sem við undirbúning ritgerðarinnar minntist Hrafnhildur Skúladóttir á sömu lýsingu en hún
sagði:
,,Þegar við vorum í Brasilíu, þá kom fyrirsögn í stóru norsku blaði um að íslenska liðið spilaði enn og aftur með
íslenska hjartað utan á búningnum sem var ótrúlega lýsandi fyrir liðið.“

Á nýafstöðnu móti er mín skoðun sú að íslenska liðið hafi einnig spilað með hjartanu. Það missti af
milliriðlinum með minnsta mun eftir jafntefli við Angóla 26-26, í leik sem skar úr um hvort liðið færi áfram í
milliriðla eða spilaði um Forsetabikarinn. Íslenska liðinu tókst að tryggja sér Forsetabikarinn með því að sigra
Kongó 30-28 og tryggði sér í leiðinni 25.sæti mótsins.

Í framhaldi af framangreindri umræðu væri áhugavert að skoða fleiri þætti, eins og líkamlegan styrk liðsins og
þróun leikmanna erlendis. Af nógu er að taka.

Þeir sem vilja kynna sér ritgerðina mína frekar geta lesið hana hér http://hdl.handle.net/1946/22461 en hún
birtist á Skemmunni.

Jóhanna Þóra Guðbjörnsdótti