Strákarnir okkar mættu Portúgal í kvöld í Porto í undankeppni EM 2022 og er þetta fyrsti leikur af þremur sem strákarnir okkar mæta liði Portúgal í þremur löndum í tveimur keppnum á 10 dögum.

Framan af var jafnræði með liðunum og þegar 12 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 4 – 4. Þegar blásið var til hálfleiks höfðu Portúgalir náð forustu og staðan 14 – 11.

Strákarnir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og rétt um miðjan seinni hálfleik komust strákarnir okkar yfir með marki frá Viggó Kristjánssyni og staðan 20 – 21 fyrir Ísland. Síðustu mínútur leiksins voru spennandi en að lokum var það lið Portúgala sem sigraði og leikurinn endaði með tveggja marka tapi strákanna okkar og staðan 26 – 24.

Mörk Íslands í kvöld skoruðu Bjarki Már Elísson 6 mörk, Elvar Örn Jónsson 6, Viggó Kristjánsson 4, Arnór Þór Gunnarsson 3, Viktor Gísli Hallgrímsson 1, Ómar Ingi Magnússon 1, Ólafur Guðmundsson 1, Janus Daði Smárason 1 og Sigvaldi Guðjónsson 1 mark.

Ágúst Elís Björgvinsson varði 7 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson 4 skot.

Strákarnir okkar halda heim á leið í fyrramálið og mæta Portúgal á sunnudaginn kl. 16:00.