U-19 karla | Þægilegur sigur gegn Ítölum

Strákarnir okkar léku gegn Ítalíu á EM í Króatíu í dag. Ítalir unnu Serba í gær á meðan okkar menn töpuðu fyrir Slóvenum, það var því algert lykilatriði að vinna í dag til að eiga möguleika á því að koma í milliriðla.

Varnarleikurinn var í fyrirrúmi hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleik og þó að sóknarleikurinn hafi ekki gengið sérstaklega vel þá byggðu strákarnir á vörninni og góðri markvörslu Adams Thorstensen og náðu ágætu forskoti. Ítalir sóttu í sig veðrið í lok hálfleiksins en strákarnir okkar höfðu þó 4 marka forystu þegar flautað var til hálfleiks, 12-8.

Í síðari hálfleik var aðeins eitt lið á vellinum, strákarnir bættu frekar í varnarleikinn og skoruðu nokkur hraðaupphlaupsmörk auk þess sem sóknarleikurinn gekk smurt. Allir leikmenn liðsins fengu að spreyta sig í leiknum, leikgleðin var í fyrirrúmi og það var gaman að sjá til liðsins.Vonandi er þetta það sem koma skal. Lokatölur í Varazdin í dag 17-30 íslenska liðinu í hag.

Markaskorarar Íslands:
Guðmundur Bragi Ástþórsson 6, Kristófer Máni Jónasson 5, Þorsteinn Leó Gunnarsson 4, Benedikt Gunnar Óskarsson 4, Arnór Ísak Haddsson 3, Jóhannes Berg Andrason 3, Andri Már Rúnarsson 2, Símon Michael Guðjónsson 1, Andri Finnsson 1, Gauti Gunnarsson 1.

Adam Thorstensen varði 17/1 skot og Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 1 skot.

Á morgun er frídagur sem strákarnir nýta í æfingar og endurheimt en á sunnudag mætir íslenska liðið Serbum og þá ræðst hvaða lið komast áfram í milliriðil.

Á myndinni sjáum við frá vinstri Arnór Viðarsson (ÍBV) sem átti stórleik í hjarta íslensku varnarinnar og Þorstein Leó Gunnarsson (Afturelding) sem var valinn maður leiksins af mótshöldurum.