Á sunnudaginn kemur, 7. september, munu Haukar mæta rússneska stórliðinu Dinamo Astrakhan í 1. umferð Evrópukeppni bikarhafa í handbolta. Síðari leikurinn fram ytra viku síðar eða sunnudaginn 14. september kl. 18:00 að staðartíma.

Þetta rússneska lið kemur alla leið austan frá Kaspíarhafi frá borginni Astrakhan. Liðið varð bikarmeistari í fyrra en lenti í 6. sæti í deildinni. 

Þessir tveir Evrópuleikir sem framundan eru hjá Haukum eru leikir nr. 99 og 100 í Evrópukeppnum í handbolta. Glæsilegur áfangi, en fyrsti Evrópuleikurinn var við Kyndil frá Færeyjum í október 1980 fyrir nær 34 árum. Haukar komust áfram í 2. umferð og lentu þá á móti þýska stórliðinu Nettelstedt. Fyrri leikurinn var á Strandgötunni og var í járnum fram á síðustu mínútur en þá tryggðu þeir þýsku sér sigur 21-18. Útileikurinn var einnig jafn framan af, 8-7 í hálfleik, en Nettelstedt sigraði 17-12 og enduðu síðan sem Evrópumeistarar. Haukar fengu því alvöru eldskírn á móti einu bestu handboltaliði heims strax í upphafi og Evrópusagan státar af glæstum afrekum á móti mörgum af stærstu og bestu handboltaliðum heimsins undanfarin ár og áratugi.

Haukaliðið hefur sýnst snerpu og styrk í fyrstu leikjum haustsins og Patrekur þjálfari segir að ekki veiti af því Rússarnir eru með líkamlega sterka leikmenn og það verður mikill baráttuleikur á sunnudaginn á Ásvöllum.  “Við ætlum að standa okkur og mætum í leikinn fullir sjálfstrausts”, segir þjálfarinn og að sjálfsögðu mæta Haukar í horni líka fullir sjálfstraust í baráttuna á sunnudaginn og í allan vetur.

Miðaverð er kr. 1.500 en frítt er fyrir 15 ára og yngri. Haukar kortin gilda ekki inn en gilda að sjálfsögðu í VIP rými.