U-19 kvenna | Tap gegn Dönum eftir flotta frammistöðu

Stelpurnar  í 19-ára liði Íslands léku sinn fyrsta leik á EM í dag þegar þær töpuðu fyrir því danska með sex marka mun, 31-25 eftir að hafa verið undir í hálfleik 15-10.  Stelpurnar byrjuðu leikinn ágætlega en fljótlega tóku svo þær dönsku öll völd á vellinum og komust mest sjö mörkum yfir um miðbik hálfleiksins.  Eftir þetta kom góður kafli þar sem íslenska liðið fór að leika 5-1 varnarleik sem virkaði vel, ásamt því að Elísabet Millý kom sterk inn í markið.

Þetta skilaði sér í góðum hröðum upphlaupum og okkar stelpur voru fljótar að ná forskoti Dana niður í þrjú mörk.  Danirnir skoruðu hinsvegar tvö seinustu mörk hálfleiksins og munurinn fór í þessi fimm mörk.  Danska liðið hélt svo frumkvæðinu í síðari hálfleik og landaði sigri eins og áður segir 31-25. Elísabet Millý var að leik loknum valin maður leiksins hjá íslenska liðinu, en hún stóð sig afar vel og varði níu skot.

Næsti leikur íslenska liðsins er á morgun gegn Litháen klukkan 10.00 að íslenskum tíma.

Markaskor íslenska liðsins: Bergrós Ásta Guðmunds­dótt­ir 5 mörk, Arna Karítas Ei­ríks­dótt­ir 4, Ásthild­ur Þór­halls­dótt­ir 4, Dag­mar Guðrún Páls­dótt­ir 4, Al­ex­andra Ósk Vikt­ors­dótt­ir 3, Guðrún Hekla Trausta­dótt­ir 2, Ásrún Inga Arn­ar­dótt­ir 1, Hulda Hrönn Braga­dótt­ir 1 og Gyða Krist­ín Ásgeirs­dóttir 1.

Í markinu varði Elísabet Millý Elíasardóttir 9 skot og Ingunn María Brynjarsdóttir 4.