U17 kvenna | Flottur sigur á Norður-Makedóníu

U17 ára lið Íslands spilaði sinn fyrsta leik á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í gær við Norður-Makedóníu.

Stelpurnar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 9-1 eftir um 12 mínútna leik. Gríðarlega öflugur varnarleikur og markvarsla skópu fjölmörg hraðaupphlaup í upphafi leiksins. Staðan í hálfleik var 12-9 okkar stelpum í vil.

Sami kraftur var í liðinu í upphafi seinni hálfleiks og komust stelpurnar í 24-12. Heimakonur náðu að minnka muninn en sigurinn langt frá því í hættu. Lokatölur voru 29-22.

Allir leikmenn liðsins komu við sögu í dag og var rúllað vel á liðinu.

Markaskor Íslands: Eva Lind Tyrfingsdóttir 6 mörk, Vigdís Arna Hjartardóttir 4, Laufey Helga Óskarsdóttir 4, Ebba Guðríður Ægisdóttir 4, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 4, Agnes Lilja Styrmisdóttir 3, Eva Steinsen 3 og Hekla Sóley Halldórsdóttir 1.

Í markinu varði Danijela Sara Björnsdóttir 12 skot og Erla Rut Viktorsdóttir 1.

Frábær byrjun á mótinu og nú er hefst undirbúningur fyrir leik á móti Noregi í dag kl. 16:15. Allir leikir mótins eru sýndir í beinni útsendingu á vefsíðunni ehftv.com án endurgjalds. Það eina sem áhorfendur þurfa að gera er að skrá sig sem notanda.