U-19 kvk | Tap gegn Svartfjallalandi í hörkuleik
Íslensku stelpurnar í 19-ára liði Íslands léku í dag sinn þriðja leik á EM. Leikið var gegn heimakonum í Svartfjallalandi og endaði leikurinn 36-31 Svartfjallalandi í vil, eftir að staðan í hálfleik hafði verið 19-16 fyrir heimakonur. Leikurinn í dag var jafn og hraður og lítið bar á milli liðanna. Svartfjallaland hafði þó alltaf frumkvæðið og okkar stelpur áttu í erfiðleikum með að verjast þeim allan leikinn. Sóknarleikurinn var hinsvegar frábær, mjög svo fjölbreyttur og góður allan leikinn. Það er því margt sem hægt er að byggja á fyrir framhaldið.
Guðrún Hekla Traustadóttir var valin maður íslenska liðsins í leiknum, en hún átti prýðisgóðan dag og skoraði 6 mörk.
Með þessum úrslitum endaði Ísland í 3. sæti riðilsins og næstu tveir leikir verða gegn Norður-Makedóníu og Póllandi. Á morgun er svo frídagur hjá stelpunum sem verður vel nýttur til að hlaða batteríin og undirbúa næstu leiki.
Markaskor íslenska liðsins: Arna Karítas Eiríksdóttir 7, Guðrún Hekla Traustadóttir 6, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 5, Ásrún Inga Arnarsdóttir 4, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1, Ágústa Rún Jónasdóttir 1, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 8.