U-19 kvenna| Tap gegn Serbíu í leik gærdagsins
Íslensku stelpurnar í 19-ára liði Íslands léku í gær sinn sjötta leik á EM. Leikið var gegn Serbíu og endaði leikurinn 29-24 fyrir þær serbnesku í hörkuleik, eftir að staðan í hálfleik hafði verið 14-11 serbneska liðinu í vil.
Serbía leiddi leikinn mest allan tímann þar sem skotnýting íslensku stelpnanna úr hraðaupphlaupum og dauðafærum var ekki nægilega góð. Sóknarleikur stelpnanna okkar var frábærlega útfærður en vantaði aðeins upp á að varnarleikurinn væri þéttari og þá um leið fengi liðið nokkra varða bolta til viðbótar. Baráttan og grimmdin í liðiinu var til fyrirmyndar og verður gaman að fylgjast með liðinu í lokaleikjum mótsins
Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir var valin maður leiksins.
Í dag mæta stelpurnar okkar liði Noregs í umspilsleik um sæti 13-16 á mótinu. Með sigri spila stelpurnar um sæti 13-14 á sunnudag, en tapist leikurinn verður leikið um sæti 15-16.
Markaskor íslenska liðsins: Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 5, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 5, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 3, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 3 , Ásrún Inga Arnarsdóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Guðrún Hekla Traustadóttir 2, Arna Karítas Eiríksdóttir 1 og Hulda Hrönn Bragadóttir 1.
Í markinu varði Elísabet Millý Elíasardóttir 6 bolta.