U-19 kvk | Stórsigur á Norður-Makedóníu og HM sætið tryggt!

Íslensku stelpurnar í 19-ára liði Íslands unnu í dag frábæran sigur á liði Norður-Makedóníu þar sem leikar enduðu 48-26 eftir að stelpurnar höfðu verið yfir í hálfleik, 21-7.  Sigurinn var ekki bara stór því hann var gríðarlega mikilvægur.  Fyrir leikinn var ljóst að þær þyrftu að vinna leikinn með minnst 17 mörkum til að komast í að leika um sæti 9-16 í mótinu sem tryggja liðinu sæti á HM U20-ára liða næsta sumar. Það var því mikil spenna í höllinni eftir því sem munurinn jókst jafnt og þétt.  

Liðið lék vel útfærðan 5-1 varnarleik allan leikinn og náðu að refsa liði Norður-Makedóníu hvað eftir annað með frábærum hraðaupphlaupum.  Sóknarleikur liðsins var einnig mjög samstilltur og góður og náðu stelpurnar okkar að skapa sér góð færi hvað eftir annað.  Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir átti sannkallaðan stórleik fyrir Ísland og skoraði hvorki meira né minna en 18 mörk og var valin maður íslenska liðsins að leik loknum. Í kvöld kemur svo í ljós hverjir andstæðingar Íslands verða í framhaldinu.

Markaskor: Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 18, Arna Karítas Eiríksdóttir 9 , Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 8, Guðrún Hekla Traustadóttir 4, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 3, Sara Lind Fróðadóttir 3 , Ágústa Rún Jónasdóttir 2 og Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 1.

Í markinu varði Elísabet Millý Elíasardóttir 5 skot og Ingunn María Brynjarsdóttir 4.