U-19 kvenna | Sigur gegn Litháen.
Íslensku stelpurnar í 19-ára liði Íslands léku sinn annan leik á EM í dag þegar þær mættu liði Litháen. Íslenska liðið sigraði leikinn 31-27 eftir að hafa verið 14-11 yfir í hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi en íslenska liðið náði þó örlitlu frumkvæði undir lok hálfleiksins þar sem þær náðu að refsa Litháen með hröðum upphlaupum.
Stelpurnar okkar héldu svo góðu frumkvæði í seinni hálfleik og náðu mest níu marka forystu þegar um tíu mínútur lifðu leiks. Lið Litháen gerði svo gott áhlaup undir lokin og náði að minnka muninn í fjögur mörk, lokatölur því 31-27 líkt og áður sagði.
Íslenska liðið er þá komið með tvö stig í riðlinum og mun leika þriðja og seinasta leik riðlakeppninnar á laugardaginn gegn heimakonum í Svartjallalandi og verður leikurinn flautaður á klukkan 15.00 að íslenskum tíma.
Markaskor íslenska liðsins: Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 6, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 6, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 5, Guðrún Hekla Traustadóttir 4, Alexandra Ósk Viktordsóttir 3, Ásrún Inga Arnarsdóttir 3, Arna Karítas Eiríksdóttir 2, Ágústa Rún Jónasdóttir 1 og Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 6 og Elísabet Millý Elíasardóttir 2.