U-19 karla | Tap gegn Dönum

U-19 ára landslið karla lék gegn Dönum í 8-liða úrslitum á HM í Kaíró fyrr í dag. Danir voru taplausir fyrir leikinn og ljóst að hér var um mjög sterkt lið að ræða.

Íslenska liðið fór vel af stað í leiknum og höfðu frumkvæðið fyrstu mínúturnar. Varnarleikurinn var góður sem skilaði nokkrum hraðaupphlaupum, smám saman náðu strákarnir okkar að bygga upp forskot sem varð mest 14-8 eftir 20 mínútur í hálfleik var staðan 17-12 okkar mönnum í hag.

Danir mættu einbeittir til leiks í síðari hálfleik, skoruðu fyrstu þrjú mörkin og eftir það var leikurinn í járnum. Töluvert hik var á sóknarleik íslenska liðsins á þessum tíma og það nýttu Danir sér til hins ýtrasta. Þegar 10 mínútur lifðu leiks náðu Danir forystunni og litu aldrei tilbaka, þrátt fyrir gott áhlaup íslenska liðsins á lokamínútunum kom allt fyrir ekki og Danir unnu 2 marka sigur, 30-32.

Markaskorarar Íslands:
Garðar Ingi Sindrason 8, Ágúst Guðmundsson 8, Dagur Árni Heimisson 6, Bessi Teitsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Stefán Magni Hjartarsson 2 og Andri Erlingsson 1.

Jens Sigurðarson varði 8 skot og Sigurjón Bragi Atlason varði 3 skot.

Íslenska liðið leikur gegn Ungverjum í umspili um 5.-8. sætið, við gerum því betri skil á miðlum HSÍ þegar nær dregur.