U-19 karla | Silfur á European Open

U-19 ára landslið karla lék til úrslita gegn Spánverjum á European Open í Gautaborg fyrr í kvöld. Liðin voru að mætast í annað sinn í mótinu en í riðlakeppninni höfðu Spánverjar tveggja marka sigur í hörkuleik.

Það voru Spánverjar sem hófu leikinn betur, framliggjandi varnarleikur þeirra var strákunum okkar afar erfiður og illa gekk að fá flot á boltann. Þó var munurinn yfirleitt ekki meiri en 1-2 mörk en á lokamínútum hálfleiksins tóku Spánverjar góðan sprett og höfðu 4 marka forystu þegar liðin gengu til búningsklefa, staðan 13-17.

Íslenska liðið mætti mun ákveðnara til leiks í síðari hálfleik og minnkaði muninn nokkrum sinnum niður í 2 mörk en alltaf áttu Spánverjar svör. Þegar 9 mínútur voru til leiksloka var munurinn kominn upp í 5 mörk og útlitið svart fyrir íslenska liðið. Strákarnir okkar eru hinsvegar ekki þekktir fyrir að gefast upp og við tók frábær leikkafli, munurinn var kominn niður í eitt mark skömmu fyrir leikslok. Spánverjar misstu boltann þegar 30 sekúndur voru eftir og íslenska liðið fékk því gullið tækifæri til að jafna leikinn með 7 sóknarmenn á móti 6 en því miður rann sóknin út í sandinn og Spánverjar fögnuðu sigri, 30-31.

Markaskorarar Íslands:
Garðar Ingi Sindrason 10, Bessi Teitsson 5, Marel Baldvinsson 3, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Dagur Árni Heimisson 2, Ágúst Guðmundsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Andri Erlingsson 1, Dagur Leó Fannarsson 1 og Egill Jónsson 1.

Jens Sigurðarson varði 9 skot og Sigurjón Bragi Atlason varði 5 skot.

Í leikslok var tilkynnt um úrvalslið mótsins, þar átti Ísland þrjá fulltrúa. Bessi Teitsson var valinn besti vinstri hornamaður, Jens Sigurðarson var valinn besti markvörðurinn og Dagur Árni Heimisson var valinn besti leikmaður mótsins. Strákarnir okkar áttu heilt yfir gott mót hér í Gautaborg þar sem liðsheildin var áberandi sterk og menn alltaf tilbúnir að styðja við næsta mann með hag hópsins í fyrirrúmi. Það er óhætt að segja að liðið hafi vakið verðskuldaða athygli en þetta er þó aðeins byrjunin, Opna Evrópumótið er undirbúningur liðsins fyrir HM sem fer fram í Egyptalandi í ágúst.

ÁFRAM ÍSLAND!