U-19 karla | Sigur gegn Brasilíu
U-19 ára landslið karla lék lokaleik sinn í riðlakeppni HM í Egyptalandi gegn Brasilíu fyrr í dag. Þetta var úrslitaleikur um efsta sætið í riðlinum og því var mikið undir í New Administrative Capital höllinni þegar leikurinn hófst.
Íslenska liðið hóf leikinn af krafti bæði í vörn og sókn og komst í 6-2 eftir 13 mínútur, en þá kom hik í leik liðsins. Þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik höfðu Brasilíumenn jafnað leikinn en til allrar hamingju voru síðustu tvö mörkin í íslensk og staðan 12-10 þegar liðin gengu til búningsklefa.
Eftir hálfleiksræðu á kjarnyrtri íslensku var allt annað lið mætt til leiks í síðari hálfleik, varnarleikur og markvarsla voru til fyrirmyndar og í framhaldinu komu nokkur auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Að lokum unnu strákarnir okkar öruggan sigur, 25-19.
Markaskorarar Íslands:
Ágúst Guðmundsson 10, Andri Erlingsson 4, Dagur Árni Heimisson 3, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Ingvar Dagur Gunnarsson 1, Haukur Guðmundsson 1 og Dagur Leó Fannarsson 1.
Jens Sigurðarson varði 8 skot í markinu en hann var í leikslok valinn maður leiksins af mótshöldurum.
Þessir sigur þýðir að íslenska liðið fer með 2 stig í milliriðla og mæta þar Serbum og Spánverjum. Ýmislegt þarf þó að laga fyrir þá leiki, strákarnir okkar voru langt frá sínu besta í dag og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Á morgun er frídagur og þá skiptir liðið um hótel þar sem milliriðillinn fer fram í annarri höll, eftir flutning verður farið á æfingu en undirbúningur fyrir milliriðilinn er þegar hafinn.
Leikjaplanið í milliriðlinum er þó ekki klárt ennþá en það fer eftir úrslitum í leik Serba og Spánverja sem fer fram í kvöld, við birtum frekari upplýsingar um næstu leiki liðsins á morgun.
Áfram Ísland!