U-19 karla | Sárt tap gegn Serbum

U-19 ára landslið karla mætti Serbum á HM í Egyptalandi í dag, þetta var fyrsti leikur liðanna í milliriðli og mikið undir þar sem strákarnir okkar gátu tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum með sigri.

Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks en eftir því sem leið á leikinn náðu Serbar frumkvæðinu og leiddu með 1-3 mörkum. Töluvert vantaði uppá vörn og markvörslu hjá strákunum en það voru Serbar sem leiddu í hálfleik, 14-17.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum, strákarnir okkar voru ennþá að þreifa fyrir sér á báðum endum vallarins á meðan Serbar héldu 3-4 marka forystu. Það var ekki fyrr en á síðustu 15 mínútunum sem leikurinn breyttist, varnarleikur íslenska leiksins batnaði mikið og smám saman minnkaði munurinn. Harka færðist í leikinn á lokamínútúnum og töluvert var um brottvísanir en strákarnir okkar létu það ekki á sig fá. Munurinn minnkaði niður í 1 mark þegar mínútu var eftir og þrátt fyrir að hafa fengið möguleikann að jafna metin á lokasekúndunum gekk það ekki. Sóknarbrot var dæmt þegar nokkrar sekúndur voru eftir og það nægði Serbum til að landa sigrinum, lokatölur 28-29.

Markaskorar Íslands:
Dagur Árni Heimisson 7, Stefán Magni Hjartarson 7, Ágúst Guðmundsson 4, Bessi Teitsson 4, Garðar Ingi Sindrason 3, Jens Bragi Bergþórsson 2 og Dagur Leó Fannarsson 1.

Jens Sigurðarson varði 6 skot og Sigurjón Bragi Atlason varði 4 skot.

Þetta var erfitt tap í dag, strákarnir gáfu sig alla í leikinn og eiga hrós skilið fyrir það. Því miður var það ekki nóg en það er annar úrslitaleikur á morgun. Þá mæta strákarnir okkur Spánverjum og sigur nægir til að komast í 8 liða úrslitin. Spánverjar hafa á að skipa mjög sterku liði og eru taplausir í mótinu en sem komið er, verkefnið er stórt en strákarnir okkar eru staðráðnir í að gera sitt allra besta. Leikurinn hefst kl. 14.15 á morgun, eins og áður verður bein útsending á youtube síðu IHF.