U-19 karla | Sannfærandi sigur gegn Sádum
Strákarnir mættu Saudi-Arabíu í öðrum leik riðlakeppninnar á HM í Kaíró í Egyptalandi nú í morgun. Með sigri í þessum leik myndu strákarnir tryggja sér sæti í milliriðli og því var til mikils að vinna.
Strax í upphafi leiks sýndi íslenska liðið yfirburði á öllum sviðum leiksins og náði leikurinn aldrei að verða spennandi. Eftir um 20 mínútna leik var staðan 16-6 og þegar blásið var til hálfleiks höfðu strákarnir okkar 11 marka forystu 22-11.
Þó að okkar menn hafa slakað á klónni í síðari hálfleik þá hélt munurinn áfram að aukast. Sádar reyndu sig áfram með 7 sóknarmenn en yfirleitt endaði það með auðveldum mörkum íslenska liðsins, þegar upp var staðið höfðu strákarnir okkar 16 marka sigur, 43-27.
Markaskorar Íslands:
Stefán Magni Hjartarson 7, Ágúst Guðmundsson 6, Sigurjón Bragi Atlason 5, Dagur Árni Heimisson 5, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Bessi Teitsson 3, Marel Baldvinsson 3, Daniel Montoro 2, Dagur Leó Fannarsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Haukur Guðmundsson 1, Hrafn Þorbjarnarson 1, Andri Erlingsson 1, Ingvar Dagur Gunnarsson 1 og Garðar Ingi Sindrason 1.
Sigurjón Bragi Atlason varði 6 skot í íslenska markinu. Eins og kemur fram hér að ofan skoraði hann einnig 5 mörk í leiknum, sennilega er þar um að ræða met hjá íslenskum markverði í landsleik þó að sá sem þetta ritar geti ekki staðfest það hér og nú.
Stefán Magni Hjartarson var valinn maður leiksins af mótshöldurum, þó hann hafi aðeins leikið fyrri hálfleik átti hann fantagóðan leik bæði í vörn og sókn.
Á morgun er frídagur hjá liðinu, hann verður nýttur til æfinga og funda en næsti leikur liðsins er á móti Brasilíu á laugardaginn og hefst hann kl. 12:00 að íslenskum tíma.