U-19 karla | Magnaður sigur á Spánverjum
U-19 ára landslið karla lék síðari leik sinn í milliriðli á HM í Kaíró í dag, andstæðingarnar í dag voru Spánverjar en þeir höfðu unnið alla sína leiki á mótinu sannfærandi fram að þessu. Strákarnir okkar þurftu sigur í þessum leik til að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.
Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og eftir 10 mínútna leik var munurinn orðinn 3 mörk, 5-1 varnarleikur íslenska liðsins gekk vel og sóknarleikurinn var smurður. Eftir því sem leið á hálfleikinn unnu Spánverjar sig aftur inn í leikinn jafnt var á öllum tölum allt þar til liðin gengu til búningsklefa, staðan 15-15.
Í hönd fór spennuþrunginn síðari hálfleikur þar sem liðin skiptust á að hafa forystu en hvorugt liðið náði að slíta sig frá, Spánverjarnir stálu boltanum tvisvar á lokamínútunni og komust 1 marki yfir en strákarnir okkar voru ekki á því að gefast upp. Jöfnunarmarkið kom þegar 20 sekúndur lifðu leiks, stuttu síðar reyndu Spánverjar ótímabært skot og boltinn kominn aftur í hendurnar á okkar mönnum. Á lokasekúndunni komu strákarnir okkar boltanum í netið með þrumuskoti utan af velli og er óhætt að segja að þessi lokakafli hafi ekki verið fyrir hjartveika. Lokatölur 31-30 og Ísland komið í 8-liða úrslit.
Markaskorarar Íslands:
Ágúst Guðmundsson 9, Andri Erlingsson 5, Jens Bragi Bergþórsson 4, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Garðar Ingi Sindrason 3, Stefán Magni Hjartarson 3, Bessi Teitsson 2, Dagur Árni Heimisson 2 og Daniel Montoro 1.
Jens Sigurðarson varði 5 skot og Sigurjón Bragi Atlason varði 4 skot.
Það var spennufall hjá strákunum okkar eftir leik, þvílíka lokamínútu hafa þessir drengir ekki upplifað áður og þeir mega vera stoltir af eigin frammistöðu í dag. Það sem bíður eru 8-liða úrslitin en ekki er ennþá ljóst hverjir mótherjarnir verða þar. Á morgun er frídagur á mótinu en 8 liða úrslitin hefjast á fimmtudag, nánar um það á morgun.
ÁFRAM ÍSLAND!