U-19 ára landslið karla mætti Eistlandi í síðari leik dagsins á Opna Evrópumótinu í Gautaborg.

Mikið var skorað á upphafsmínútum leiksins og eftir 10 mínútur var staðan 9-9. Íslenska liðið var þó sterkara það sem eftir lifði hálfleiksins og var með tveggja marka forystu þegar liðin gengu til búningsklefa, 14-12.

Í síðari hálfleik var aðeins eitt lið á vellinum, strákarnir okkar léku við hvern sinn fingur og skoruðu hvert markið á fætur öðru úr hraðaupphlaupum. Þegar flautað var til leiksloka var forystan orðin 13 mörk, 30-17.

Markaskorarar Íslands:
Andri Erlingsson 7, Garðar Ingi Sindrason 4, Ingvar Dagur Gunnarsson 3, Marel Baldvinsson 3, Daníel Montoro 3, Ágúst Guðmundsson 2, Bessi Teitsson 2, Egill Jónsson 2, Haukur Guðmundsson 2, Dagur Leó Fannarsson 1 og Sigurjón Bragi Atlason 1.

Sigurjón Bragi Atlason varði 9 skot í leiknum.

Seinasti leikurinn í riðlakeppninni fer fram í fyrramálið kl. 8:30 að íslenskum tíma en þá mæta strákarnir okkar Litháum.