2. deild karla

Í vikunni fór fram fundur um málefni 2. deildar karla. Undanfarin ár hafa fjölmörg lið tekið þátt í keppninni og miðað við núverandi skráningar má búast við að um 11 lið verði í deildinni í vetur.

Leikjafjöldi hvers liðs verður um 20 leikir og er stefnt að því að leikjaniðurröðun verði tilbúin í byrjun september. Eingöngu verður leikin deildarkeppni og þarf henni að ljúka eigi síðar en 1. maí.

Liðunum verður veitt ákveðið svigrúm við val á leikdögum en mótanefnd mun hafa strangara eftirlit en áður, til að tryggja að deildin fari fram á sem skipulegastan og jafnastan hátt. Reiknað er með að fyrstu leikir fari fram í síðari hluta september.

2. deild kvenna í undirbúningi

Á sama tíma var haldinn fundur um að hefja 2. deild kvenna og skapa þannig fleiri tækifæri fyrir stelpur til að spila handknattleik í keppnisformi. Fimm félög sóttu fundinn og sýndu áhuga á að senda lið til leiks.

Stefnt er að því að hefja deildina strax á þessu tímabili. Frestur til að staðfesta þátttöku er í byrjun september og myndi deildin spanna tímabilið frá 1. október til 1. maí. Áætlaður leikjafjöldi er 12–16 leikir, en endanleg tala fer eftir fjölda liða sem skrá sig til leiks.