Úrskurður aganefndar 26. ágúst 2025

Eftirtalin mál lágu fyrir og var tekið til úrskurðar:

Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ, þar sem stjórn HSÍ ákvað að vísa til aganefndar HSÍ ummælum, sem Einar Jónsson, þjálfari Fram viðhafði um dómgæslu og dómaramál í viðtali eftir leik Fram og Stjörnunnar, í Meistarakeppni HSÍ í mfl. karla, þann 21. ágúst sl.

Í samræmi við 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var Fram gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð. Greinargerð hefur borist frá Fram.

Samkvæmt 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til aganefndar atvikum sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Um getur m.a. verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega. Aganefnd hefur farið yfir umrædd ummæli.

Með vísan til fyrri fordæma er það hins vegar mat nefndarinnar að gera verður í þessum efnum, greinarmun á, annars vegar ummælum sem fela í sér almenna gagnrýni á störf dómara og hins vegar alvarlegum aðdróttunum í garð einstakra dómara, ásakanir um óheiðarleika eða aðra viðlíka háttsemi. Telur nefndin að umrædd ummæli feli fyrst og fremst í sér gagnrýni þjálfarans sem byggja á upplifun hans og hann getur að einhverju marki fært rök fyrir. Innan tjáningarfrelsis þjálfarans rúmast, að mati nefndarinnar, réttur hans til að segja, innan skynsamlegra marka, skoðun sína á frammistöðu dómara, leikmanna og skipulagi HSÍ. Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli ekki í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar eða óíþróttamannslega háttsemi sem nær því alvarleikastigi að réttlæt geta að láta þjálfarinn sæta viðurlögum. Að mati nefndarinnar er því ekki tilefni til að láta aðila sæta viðurlögum í máli þessu en áréttar þó mikilvægi þess að þjálfarar líkt og leikmenn liða sýni í orðum og í verki þá almennu háttvísi og framkomu sem samboðin er handknattleiksíþróttinni.

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Ágúst Karl Karlsson