U-19 karla | Sigur gegn Ungverjum
U-19 ára landsliðið lék gegn Ungverjum í umspili um 5.-8. sæti á HM í Egyptalandi. Bæði liðin léku hörku leiki í 8-liða úrslitum í gær og eflaust erfitt að koma sér í rétta gírinn strax daginn eftir en úr varð hörkuleikur tveggja góðra liða.
Það voru Ungverjar sem byrjuðu betur og höfðu frumkvæðið framan af leik en eftir því sem leið á færðust strákarnir okkar nær og náðu yfirhöndinni eftir góðan kafla. En lokamínúturnar voru Ungverja sem jöfnuðu skömmu fyrir leikhlé, staðan 17-17 eftir 30 mínútur.
Íslenska liðið breytti varnarleik sínum í síðari hálfleik og náði smám saman undirtökunum í leiknum. Mestur varð munurinn 5 mörk og þrátt fyrir góðar tilraunir Ungverja náðu þeir ekki að jafna leikinn, lokatölur 37-36 fyrir strákana okkar.
Markaskorarar Íslands:
Marel Baldvinsson 8, Ágúst Guðmundsson 6, Bessi Teitsson 5, Jens Bragi Bergþórsson 5, Dagur Árni Heimisson 3, Elvar Þór Aðalsteinsson 3, Daníel Montoro 2, Garðar Ingi Sindrason 2, Stefán Magni Hjartarson 2 og Sigurjón Bragi Atlason 1.
Jens Sigurðarson varði 5 skot og Sigurjón Bragi Atlason varði 1 skot.
Marel Baldvinsson var valinn maður leiksins af mótshöldurum í leikslok.
Þetta þýðir að íslenska liðið leikur um 5. sætið á HM gegn heimamönnum í Egyptalandi. Það má reikna með fullri höll í Kaíró á leiknum og sjálfsögðu skorum við á alla að fylgjast með leiknum. Nánar um þennan leik á miðlum HSÍ þegar nær dregur.