U-19 kvk | Tap gegn Póllandi

Íslensku stelpurnar í 19-ára liði Íslands léku í dag sinn fjórða leik á EM.  Leikið var gegn Póllandi og endaði leikurinn 26-21 fyrir þær pólsku eftir að staðan í hálfleik hafði verið 15-8, Póllandi í vil. Pólverjar tóku frumkvæðið strax í leiknum og áttu stelpurnar okkar oft á tíðum mjög erfitt með að hemja þær pólsku sem eru með mjög hávaxið og öflugt lið. 

Eftir leikhlé mætti allt annað íslenskt lið inná völlinn og spilaði liðið sinn besta varnarleik í keppninni til þessa. Stelpurnar okkar léku frábæra 5-1 vörn og stálu mikið af boltum af pólska liðinu sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð.  Íslenska liðið náði að minnka muninn mest niður í þrjú mörk en lengra komust þær ekki og fimm marka tap var niðurstaðan.  

Á morgun leikur liðið gegn Norður-Makedóníu og hefst leikurinn klukkan 12.30 að íslenskum tíma. Ásrún Inga Arnarsdóttir var valin maður íslenska liðsins í leiknum.

Markaskor íslenska liðsins :Ásrún Inga Arnarsdóttir 5, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 4, Arna Karítas Eiríksdóttir 3, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 3, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 2, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 1, Gyða Kristín Ásgeirsdóttir 1, Hulda Hrönn Bragadóttir 1 og Sara Lind Fróðadóttir 1.

Varin skot: Elísabet Millý Elíasardóttir 8 og Ingunn María Brynjarsdóttir 3.