U-19 karla | Strákarnir okkar leika til úrslit á European Open

U-19 ára landsliðið lék gegn Króötum í undanúrslitum á Opna Evrópumótinu í Gautaborg fyrr í dag. Króatar voru taplausir fyrir þennan leik og ljóst að um mjög sterka andstæðinga var að ræða.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en eftir því sem leið á leikinn náðu strákarnir okkar betri tökum á varnarleiknum sem skilaði nokkrum auðveldum hraðaupphlaupsmörkum. Íslenska liðið hafði 3 marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 16-13.

Þessi munur á liðunum hélst fram eftir síðari hálfleik, strákarnir okkar léku frábæra 5-1 vörn og voru skynsamir í sókninni. Króatar reyndu allt sem þeir gátu, fóru m.a. í maður á mann vörn seinustu 5 mínúturnar en allt kom fyrir ekki. Íslenska liðið fagnaði sigri og leikur til úrslita gegn Spánverjum á morgun, lokatölur í kvöld 32-30.

Markaskorarar Íslands:
Andri Erlingsson 6, Garðar Ingi Sindrason 5, Dagur Árni Heimisson 5, Jens Bragi Bergþórsson 5, Ágúst Guðmundsson 3, Marel Baldvinsson 2, Daníel Montoro 2, Elís Þór Aðalsteinsson 2, Dagur Leó Fannarsson 1 og Bessi Teitsson 1.

Jens Sigurðarson varði 16 skot í leiknum.

Það var frábær stemming í Valhalla-höllinni í kvöld og fjölmargir Íslendingar mættir til að hvetja strákana okkar. Strákarnir okkar eru þakklátir fyrir stuðninginn og hlakkar til að fá ennþá fleiri á úrslitaleikinn annað kvöld. Úrslitaleikurinn hefst kl. 18.15 að íslenskum tíma og fer fram í Scandinavium. Við fylgjumst með liðinu á miðlum HSÍ og minnum að sjálfsögðu á frábæra umfjöllun á handbolti.is