U-19 ára landslið karla mætti Litháen í lokaleiknum í riðlakeppni European Open í Gautaborg nú í morgun.

Strákarnir okkar hófu leikinn af krafti og eftir 8 mínútur var staðan 5-1. Sá munur átti bara eftir að aukast, liðið að leika fínan handbolta þar sem góð vörn og hraðaupphlaup voru áberandi. Hálfleikstölur 12-5.

Síðari hálfleikurinn spilaðist á svipaðan máta og þó svo íslenska liðið hafi aðeins slakað á þá var sigurinn aldrei í hættu, lokatölur 21-13 og sæti í undanúrslitum tryggt.

Markaskorarar Íslands:
Jens Bragi Bergþórsson 4, Marel Baldvinsson 3, Haukur Guðmundsson 3, Ingvar Dagur Gunnarsson 2, Daníel Montoro 2, Bessi Teitsson 2, Elís Þór Aðalsteinsson 2, Ágúst Guðmundsson 1, Dagur Leó Fannarsson 1 og Hrafn Þorbjarnarson 1.

Jens Sigurðarson varði 6 skot og Sigurjón Bragi Atlason varði 5 skot.

Þessi sigur tryggði strákunum okkar 2. sætið í riðlinum og sæti í undanúrslitum, ekki er ráðið hverjir andstæðingar okkar verða en það kemur í ljós síðar í dag. Undanúrslita leikurinn fer fram á morgun, fimmtudag kl. 17.00 að íslenskum tíma.