A landslið karla

HSI | HM 2031 haldið á Íslandi, Noregi og Danmörku

Kjartan Ólafsson

 


HSI | HM 2031 haldið á Íslandi, Noregi og Danmörku

Í fyrsta skipti síðan 1995 fer stórmót í handknattleik fram á Íslandi. Alþjóðlega handknattleikssambandið ákvað fyrr í dag að Heimsmeistaramót karla í handknattleik árið 2031 fari fram á Íslandi en auk þess fer mótið einnig fram í Danmörku og Noregi.

Ísland, Danmörk og Noregur eru meira en tilbúin til að halda Heimsmeistaramót sem á eftir að vekja athygli um allan heim. Handknattleikssambönd þjóðanna hafa þegar sameinað krafta sína og hafa stórar hugmyndir þegar kemur að mótahaldinu sjálfu.

Löndin eru vel í stakk búin til að halda farsælt heimsmeistaramót. Með sameiginlegri reynslu og djúpar rætur í handknattleikssamfélaginu má öllum vera ljóst að hér verður um að ræða mót þar sem fer saman frábær upplifun í uppseldum íþróttahöllum með mikla fjölmiðlaumfjöllun. Ekki má gleyma hlut aðdáenda, mikið verður lagt í að gera þeirra hlut sem stærstan í þessari hátíð.

Handknattleikur er í hjarta þessara þjóða sem geta ekki beðið eftir að fá að halda þetta mót.

Morten Stieg Christiansen, formaður danska handknattleikssambandsins:

“Við erum bæði stollt og spennt yfir því að fá HM í handknattleik 2031 til Danmerkur, í samstarfi við Noreg og Ísland. Þetta verður ein allsherjar handboltahátíð þar sem bestu lið í heimi munu búa til ógelymanleg augnablik fyrir áhorfendur og veita næstu kynslóð innblástur til frekari afreka. Í samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndunum munum við leggja mikið á okkar til að búa til ógleymanlegan viðburð.”

Kåre Geir Lio, formaður norska handknattleikssambandsins:

“Við erum í skýjunum með að hafa fengið úthlutað Heimsmeistaramótinu í handknattleik 2031 í samstarfi við Dani og Íslendinga. Þetta mót á eftir að sýna getu og breidd handknattleiks á Norðurlöndunum, bæði menninguna og andrúmsloftið. Við höfum nú þegar unnið með Dönum nokkrum sinnum og nú hlakkar okkur mikið til að fá Íslendinga inn í það samstarf. Það er mikil spenna í okkar herbúðum.”

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ:

“Við erum í skýjunum með tilnefninguna og fá þar með að halda Heimsmeistaramótið ásamt félögum okkar í Danmörku og Noregi. Þessi mikli heiður sýnir líka metnað okkar í þjóðaríþróttinni. Þetta sameiginlega átak okkar lyftir ekki bara íþróttinni hér á Íslandi heldur sýnir líka að minni þjóðir eiga möguleika að taka þátt í skipulagningu stórmóta með alþjóðlegu samstarfi.”

Lars Lundov, framkvæmdastjóri Sport Event Denmark

“Að fá úthlutað Heimsmeistaramótið í handknattleik 2031 er frábært viðurkenning á því starfi og mótahaldi sem hefur verið unnið í handknattleik í Danmörku, Noregi og á Íslandi. Ásamt því að halda frábært mót fyrir bæði handknattleiksfólk og alla aðdáendur íþróttarinnar, þá ætlum við líka sýna IHF og framtíðarmótshöldurum hvernig svona mót á að halda í framtíðinni. Fyrir 4 mánuðum síðan héldu Danmörk, Noregur og Svíþjóð frábært Heimsmeistaramót kvenna og eftir einungis 9 mánuði fer Heimsmeistaramót karla fram, að hluta til einnig hér í Danmörku.”

Heimsmeistaramótið árið 2031 verður í sjöunda skipti sem Danmörk og Noregur taka að sér sameiginlegt mótahald en þetta verður í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt í samstarfinu.

Fyrri heimsmeistaramót sem hafa farið fram á Norðurlöndunum:

1954, Svíþjóð

1967, Svíþjóð

1978, Danmörk

1993, Svíþjóð

1995, Ísland

2011, Svíþjóð

2019, Danmörk (og Þýskaland)

2023, Svíþjóð (og Pólland)

2025, Danmörk, Noregur (og Króatía)

2031, Danmörk, Noregur og Ísland

Nýjustu fréttir

Aganefnd
Rautt spjald
Yngri landslið
Grænland.