Aganefnd

Aganefnd HSÍ | Úrskurður 17.09. '25

Róbert Geir Gíslason
Rautt spjald

Aganefnd HSÍ | Úrskurður 17.09. '25

Úrskurður aganefndar 17. september 2025

Eftirtalin mál lágu fyrir og voru tekin til úrskurðar:

1. Aganefnd barst erindi frá málskotsnefnd HSÍ, þar sem nefndin ákvað að vísa til aganefndar HSÍ leikbroti Ásgeirs Snæs Vignissonar leikmanns Víkings í leik liðsins gegn Fjölni í Grill 66 deild karla þann 12. september 2025.

Í samræmi við 1. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var Víkingi veittur frestur til kl. 12.00, miðvikudaginn 17. september 2025, í þeim tilgangi að skila greinargerð vegna málsins. 

Greinargerð Víkings hefur borist aganefnd. 

Í greinargerðinni er í fyrsta lagi byggt á því að vísa eigi málinu frá aganefnd á grundvelli formannmarka, þar sem myndbönd af leikbrotinu hafi ekki fylgt fundargerð málskotsnefndar og geti Víkingur því ekki tekið til varna á fullnægjandi máta, auk þess sem reglugerð HSÍ um agamál sé ekki aðgengileg á heimasíðu HSÍ. 

Í öðru lagi er byggt á því að forsenda 1. gr. reglugerðar HSÍ um agamál, þess efnis að aganefnd hafi heimild til að úrskurða um alvarleg brot sem dómarar hafi ekki séð, teljist ekki uppfyllt í máli þessu. Er einkum á því byggt, af hálfu Víkings, að umrætt brot hafi orðið fyrir slysni og ekki af ásetningi viðkomandi leikmanns.

Með greinargerð Víkings er þess krafist að viðkomandi leikmanni verði ekki gerð refsing fyrir leikbrotið.

Aganefnd hefur farið öll gögn málsins, þ.m.t. myndbandsupptökur af leikbrotinu og komist að eftirfarandi niðurstöðu.

Aganefnd telur ekki forsendur til að vísa málinu frá á grundvelli formannmarka. Vísar aganefnd til þess að samkvæmt 18. gr. laga HSÍ skal stjórn sambandsins setja nauðsynlegar reglugerðir um þau málefni sem snúa að framkvæmd laganna. Nær það til allra breytinga á gildandi reglugerðum sem og setningu nýrra reglugerða. Nýjar reglugerðir og breytingar á gildandi reglugerðum skulu samkvæmt lagagreininni kynntar aðildarfélögum með rafrænum hætti og taka þær gildi samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar HSÍ. Ekki þarf að birta þær með sérstökum hætti svo þær öðlist gildi heldur er nægjanlegt að þær séu kynntar með rafrænum hætti og á heimasíðu HSÍ.

Aganefnd hefur undir höndum gögn sem sýna fram á að ný reglugerð HSÍ um agamál, er samþykkt var af stjórn HSÍ þann 3. september 2025, var kynnt aðildarfélögum með tölvubréfi framkvæmdastjóra sambandsins dags. 13. september 2025. Telur aganefnd reglugerðina ekki girða fyrir að málskotsnefnd geti fjallað um atvikið, jafnvel þó litið yrði svo á að reglugerðin hafi ekki verið kynnt með formlegum hætti fyrr en 13. september 2025. Þá er augljóst af greinargerð Víkings að félagið hefur kynnt sér umrædda reglugerð og ákvæði hennar er varða málskotsnefnd. Að sama skapi telur aganefnd ljóst af greinargerð Víkings, að félagið hefur haft aðgang að myndbandsupptökum af atvikin og því haft allar forsendur til að taka til varna í málinu með fullnægjandi hætti, svo sem greinargerðin er til vitnis um. 

Með tilvísun í 1., sbr. einnig 18. gr., reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar leikmaðurinn er úrskurðaður í þriggja leikja bann. 

Leikbannið tekur gildi 18. september 2025.

 

2. Skýrsla barst frá dómurum leiks ÍBV 2 og Harðar sem fram fór 18. september 2025, í Poweraid bikar karla. Í skýrslunni kemur fram að leikmaður Harðar, Bragi Rúnar Axelsson hafi hegðað sér mjög ódrengilega eftir lok leiksins. Dómarar hafa metið sem svo að brotið falli undir reglu 8:10 a). Aganefnd tók málið fyrir á fundi sínum þann 16. september 2025. Var það mat aganefndar að brot leikmannsins geti verðskuldað lengra bann en einn leik og var því óskað greinargerðar Harðar vegna málsins, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar HSÍ um agamál.

Greinargerð Harðar hefur borist aganefnd. Er þar m.a. vísað til þess að atvik undir lok leiksins hafi leitt til þess að umræddur leikmaður hafi snöggreiðst og kastað stól í átt að leikmönnum heimaliðsins. Er þar einnig að finna talsverða gagnrýni á framkvæmd leiksins og lýsingu atvika í skýrslu dómara.

Aganefnd hefur farið yfir öll gögn málsins þ.m.t. myndbandsupptökur af því atviki sem hér er til skoðunar. Hvað sem framkvæmd leiksins og öðrum atvikum líður, telur aganefnd liggja fyrir að umræddur leikmaður hafi með hegðun sinni undir lok leiks, komið fram með ódrengilegum hætti og falli brotið undir reglu 8:10 a). Með vísan til framangreinds er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í þriggja leikja bann.

Leikbannið tekur gildi 18. september 2025.

 

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Ágúst Karl Karlsson.

Nýjustu fréttir

Powerade bikarinn
Powerade bikarinn - nýtt logo
Aganefnd
Rautt spjald