Stelpurnar okkar fengu eitt allra besta landslið heims í heimsókn í kvöld, Svíþjóð. Leikið var í Schenker höllinni í Hafnarfirði og það voru gestirnir sem höfðu yfirhöndina til þess að byrja með án þess þó að ná að hrista íslenska liðið afgerandi af sér. Stelpurnar okkar náðu upp góðri vörn þegar að leið á leikinn og áður en hálfleikurinn var allur komst íslenska liðið fram úr með frábærum kafla í sókn, vörn og með góðri markvörslu. Hálfleikstölur 15-13 Ísland í vil.
Í þeim síðari hófu íslensku stelpurnar leikinn af krafti og náðu þriggja marka mun en þá náðu gestirnir góðum kafla á meðan það hægðist á sóknarleik íslenska liðsins. Vörnin hélt þó ágætlega framan af og stelpurnar okkar komu í veg fyrir hraðarupphlaup sænska liðsins. Gestirnir sigu fram úr hægt og örugglega, en stelpurnar okkar neituðu að gefast upp og þegar ein og hálf mínúta var eftir vann íslenska liðið boltann og gat jafnað en allt kom fyrir ekki. Gestirnir tryggðu sér sigur
eftir gríðarlega spennandi lokakafla, lokatölur 25-26 Svíþjóð í vil. Íslenska liðið var frábært og á stórum köflum var hrein unun að horfa á varnarleik liðsins.
Mörk og varðir boltar:
Helena Rut Örvarsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 4, Lovísa Thompson 4, Arna Sif Pálsdóttir 4/1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Karen Knútsdóttir 3/1, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Perla Ruth Albertsdóttir 1. Hafdís Renötudóttir varði 12 skot.
Seinni vináttulandsleikur liðanna fer fram á laugardag í Schenker höllinni Hafnarfirði og hefst leikurinn kl. 16.00. Nú er að safna liði og við hvetjum alla til að fjölmenna á leikinn og styðja stelpurnar okkar til sigurs!