U-19 kvk | Stórsigur á Tyrklandi og 15. sætið niðurstaðan
Íslensku stelpurnar í 19-ára liði Íslands unnu í dag frábæran sigur á liði Tyrklands þegar leikið var um 15. sætið á EM í Podgorica í Svartfjallalandi. Leikurinn endaði 36-24 fyrir okkar stelpum eftir að þær höfðu verið yfir 15-12 í hálfleik. Ísland mætti af miklum krafti inn í leikinn og spilaði góðan varnarleik með Ingunni Maríu Brynjarsdóttur í miklu stuði þar fyrir aftan í markinu. Sóknarlega komust stelpurnar ítrekað í góð færi en tókst illa að koma boltanum í markið.
Í síðari hálfleik var það síðan 5-1 vörnin sem gerði út um leikinn, en sterkt lið Tyrklands átti engin svör við frábærum varnarleik Íslands. Stelpurnar okkar unnu boltann ítrekað af Tyrkjunum og keyrðu hraðaupphlaup af miklum krafti þannig að eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik var munurinn kominn upp í átta mörk. Sóknarleikur Íslands í dag var algjörlega frábær og stelpurnar spiluðu sig listilega í gegnum tyrknesku vörnina hvað eftir annað. Lokatölur eins og áður segir 36-24 fyrir Ísland, þar sem Ingunn María Brynjarsdóttir var valinn maður íslenska liðsins í leiknum en hún fór á kostum í markinu og varði 14 skot.
Ísland endar því í 15. sæti á mótinu, sem gekk heilt yfir afar vel hjá liðinu og verður gott veganesti fyrir stelpurnar inn í næsta tímabil. Liðið mun æfa af krafti í vetur og stefna enn hærra á HM U20-ára sem fer fram næsta sumar.
Markaskor íslenska liðsins: Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 7, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 7, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 4, Arna Karítas Eiríksdóttir 4, Ágústa Rún Jónasdóttir 4, Ásrún Inga Arnarsdóttir 4, Hulda Hrönn Bragadóttir 2, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 1, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 1, Guðrún Hekla Traustadóttir 1 og Gyða Kristín Ásgeirsdóttir 1.
Í markinu varði Ingunn María Brynjarsdóttir 14 bolta og Elísabet Millý Elíasardóttir 2.